14 September 2012 12:00

Á annað hundrað lítrum af olíu var stolið af vörubifreið í Reykjanesbæ í fyrradag. Sá sem tilkynnti stuldinn tjáði lögreglunni á Suðurnesjum að gul slanga hefði legið meðfram hlið vörubílsins þegar komið var á vettvang. Þetta vakti að vonum grunsemdir og þegar að var gáð reyndust 100 til 150 lítrar af olíu horfnir úr tanknum.

Þá var í vikunni tilkynnt um þjófnað á Mongoose reiðhjóli.

Tíu pokar af skreið á akbraut

Lögreglunni á Suðurnesjum var í fyrradag  gert viðvart um að allmargir úttroðnir pokar lægju á Hafnavegi, nærri Höfnum, og að af þeim gæti reynst slysahætta.  Þegar  lögregla kom á vettvang reyndist um að ræða tíu strigapoka sem voru fullir af skreið. Höfðu þeir fallið af vörubílspalli og var ökumaðurinn á leiðinni til baka að sækja skreiðina. Engin óhöpp hlutust af þessu atviki.