2 Febrúar 2023 15:25

Frá árinu 2020 hefur lögreglan á Austurlandi birt stefnumörkun til næstu tólf mánaða. Hún hefur byggt hana á reynslu fyrri ára og miðað við sett markmið og áherslur.  Stefnan hefur verið kynnt opinberlega þannig að störf hennar, áherslur og markmið hverju sinni verði sýnileg íbúum.

Lykilmarkmið embættisins er að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa með því að veita framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum í samræmi við hlutverk það sem henni er falið að lögum. Stefnan miðar að þessu markmiði.

Þannig stefnir lögregla sem fyrr að öflugum forvörnum í samstarfi við hagsmunaaðila, sýnileika, faglegri og skilvirkri rannsóknarvinnu, markvissri gagnagreiningu til notkunar við ákvörðunartöku og að reglulegri upplýsingamiðlun til íbúa.

Lögregla hefur átt gott samstarf við sveitarfélög á svæðinu og barnavernd. Hún mun gera sitt til að treysta þá samvinnu og freista þess að auka enn samstarf við aðra hagsmunaaðila eins og stjórnendur skóla í umdæminu, nemendur þeirra og kennara. Hún stefnir og að auknu samtali við félagasamtök, atvinnulíf og ekki síst íbúa, með þá hugmyndafræði að leiðarljósi að samvinna og samstarf sé best til þess fallið að gera gott samfélag enn betra.

Vekur lögregla í því sambandi athygli á að afbrotavarnir eru samfélagslegt viðfangsefni þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð.

Það þarf þorp til að ala upp barn! Hjálpumst að við það verkefni.

Stefnuna má finna hér.