14 Febrúar 2024 11:51

Frá árinu 2020 hefur lögreglan á Austurlandi birt stefnumörkun til næstu tólf mánaða. Stefnumörkunina hefur lögreglan byggt á reynslu fyrri ára, þeim markmiðum sem sett hafa verið, áherslum og niðurstöðum. Stefnan hefur verið kynnt opinberlega með það að markmiði meðal annars að störf lögreglunnar verði sýnileg og gefi kost á skoðanaskiptum og samtali um það hvert beri að stefna. Í þessum anda hefur stefnan og verið kynnt helstu samstarfsaðilum fyrir útgáfu og í drögum.

Lykilmarkmið embættisins er að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og þeirra sem starfa og dvelja í umdæminu. Því markmiði telur lögreglan sig geta náð með því að vinna eftir skýrri hugmyndafræði og stefnu sem á henni byggir.

Helstu áhersluatriði lögreglunnar á Austurlandi, þau sem hún telur best gagnast við að ná lykilmarkmiðum sínum, er samstarf við hagsmunaaðila, sýnileg löggæsla, faglegar og skilvirkar rannsóknir, markviss greining gagna og regluleg upplýsingamiðlun.

Lögregla hefur átt afar góða samvinnu við sveitarfélög á svæðinu, í samræmi meðal annars við ákvæði 12. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og barnavernd. Lögreglan stefnir að því að efla það samstarf enn með auknu samtali við skólastjórnendur umdæmisins í samræmi við forvarnarstefnu embættisins, nemendur þeirra og kennara. Þá stefnir lögreglan að öflugu og góðu samtali við félagasamtök, atvinnulíf og ekki síst íbúa umdæmisins með það leiðarljósi að samvinna og samstarf sé best til þess fallið að gera gott samfélag enn betra.

Afbrotavarnir eru samfélagslegt viðfangsefni þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð.

Stefnuna í heild sinni má finna hér.