17 Apríl 2012 12:00

 Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af karlmanni um þrítugt sem grunur lék á að væri með ólögleg efni í fórum sínum. Að fengnum dómsúrskurði fór lögregla með fíkniefnahund í húsleit á heimili hans. Á heimilinu fundust meintir sterar. Maðurinn var færður á lögreglustöð og sleppt að loknum yfirheyrslum. Málið telst upplýst.

Hundeigendur í hár  saman

Lögreglunni á Suðurnesjum var í gær tilkynnt um tvo hundeigendur sem ættu í deilum við hesthúsahverfi í umdæminu eftir að hundum þeirra hefði lent saman. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var þar fyrir annar hundeigendanna, sem bar hinum illa söguna.  Kvaðst hann hafa verið á gangi með hund sinn þegar annar hundur hefði komið aðvífandi og ráðist á hann. Eigandi árásarhundsins hefði verið í akstri á bifreið sinni og látið sinn hund hlaupa lausan með þegar atvikið átti sér stað.  Maðurinn kvaðst hafa átalið þetta athæfi en sá sem bílnum ók svarað illu einu til. Lögreglan hafði upp á hinum síðarnefnda og gerði honum grein fyrir því að ólíðandi væri að hundur hans gengi laus og réðist á aðra hunda. Hann lofaði bót og betrun.

Óku undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á Suðurnesjum hafði nýverið afskipti af tveimur ökumönnum sem báðir reyndust hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra, karlmaður á þrítugsaldri, reyndist ofan í kaupið hafa verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Hinn ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, reyndist vera með maríjúana í buxnavasanum þegar að var gáð eftir að hann hafði verið færður á lögreglustöð.

Olíuþjófar gripnir

Lögreglunni á Suðurnesjum var um helgina tilkynnt um óeðlilegar mannaferðir við húsnæði fyrirtækis í Reykjanesbæ.  Vísbendingar leiddu til þess að lögreglumenn höfðu fljótlega upp á tveimur karlmönnum sem grunaðir voru um að hafa verið að keppast við að stela olíu úr tanki steypubifreiðar í eigu fyrirtækisins þegar styggð kom að þeim og þeir höfðu sig á brott. Við steypubílinn fundust þrír brúsar, einn þeirra  hálfur af olíu og tveir tómir. Að auki voru slöngur á vettvangi. Mennirnir voru yfirheyrðir og látnir lausir að því loknu.

Þá var lögreglu tilkynnt um innbrot og þjófnað hjá Verktakasambandinu í Reykjanesbæ um helgina. Þaðan var stolið tveimur tölvuskjám og tölvuturni. Málið er í rannsókn.