5 September 2003 12:00
Í framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins er hafið sérstakt nám fyrir stjórnendur lögreglunnar og er það haldið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Námið samsvarar 12 – 15 einingum á háskólastigi og eru klukkustundir sem kennt er um 300 eða um 450 kennslustundir.
Námið er byggt upp í námslotum þannig að eina viku hvers mánaðar, frá og með september til og með apríl, eru nemendur við nám í Lögregluskólanum og vinna heimaverkefni milli námslotanna. Náminu lýkur í maí með skilum á lokaverkefni.
Fyrsta námslotan í skólanum hófst þann 1. september s.l. en áður höfðu þátttakendur verið í fjarnámi frá því í mars. Fjarnámið fór þannig fram að nemendur unnu verkefni og sendu til Lögregluskólans.
Áætlanir skólans ganga út á það að starfandi stjórnendur í lögreglu hljóti þessa menntun nú á næstu þremur til fjórum árum en að því átaki loknu verði hægt að einbeita kröftum framhaldsdeildar skólans að því að auka við þessa menntun og bjóða verðandi stjórnendum sambærilegt nám.
Kostnaður við námið er verulegur en það er sérstakt og jákvætt að nemendur greiða sjálfir hluta af kostnaðinum með því að reiða fram námskeiðsgjald og herma heimildir að það sé einsdæmi og óþekkt í nágrannalöndunum. Það var unnt að koma þessu fyrirkomulagi á með samningi við Landssamband lögreglumanna sem hefur sýnt þessu menntunarátaki mikinn áhuga og skilning auk þess sem dómsmálaráðuneytið hefur styrkt það verulega og gert mögulegt að hrinda því af stokkunum.
Kennslugreinar eru fjölmargar og má sem dæmi nefna skipulag opinberrar stjórnsýslu, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og fleiri greinar sem tengjast starfsemi ríkisins en auk þess hefðbundin viðfangsefni í almennu stjórnunarnámi eins og starfsmannastjórnun, verkefnastjórnun, áætlanagerð, jafnréttismál, siðfræði, samskipti, upplýsingatækni, samskipti við fjölmiðla, áfallahjálp, vinnuvernd, kjarasamningar og stefnumótun. Tvær námslotur eru eingöngu helgaðar sérstökum viðfangsefnum lögreglu svo sem málefni útlendinga, stjórn tiltekinna lögregluaðgerða og lögreglurannsókna, réttarfar og refsiréttur.
Af hálfu Lögregluskólans og lögreglunnar í heild eru bundnar miklar vonir við þessa stjórnunarmenntun og það er sérstaklega gleðilegt hversu mikinn áhuga lögreglumenn, og ekki síður lögreglustjórar, sýna þessu átaki.