17 Nóvember 2016 19:22

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sér um framkvæmdir á ákvörðunum Útlendingastofnunar frá Íslandi.

Eftir að stoðdeild móttekur beiðni Útlendingastofnunar hefst undirbúningur á framkvæmd fylgdar úr landi.  Haft er samband við þann sem flytja á með góðum fyrirvara og honum/henni tilkynnt hvað muni gerast og þá hugsanleg dagsetning á framkvæmd, um það bil tvær vikur fram í tímann.

Á meðan undirbúningstíma stendur er haft samband reglulega við þann sem á að flytja, bæði í gegnum síma eða með heimsókn.  Þar eru alltaf allir hlutir útskýrðir og spurningum svarað eftir því sem lögreglan er með upplýsingar um.  Ef viðkomandi er ósáttur við niðurstöðu síns máls og þá fyrirhugaða framkvæmd er þeim bent á að hafa samband við lögmann sér til aðstoðar og hefur stoðdeild einnig í sambandi við þann lögmann til að halda öllum upplýstum.

Þegar að framkvæmd kemur,  koma lögreglumenn þar sem viðkomandi dvelur og hefja framkvæmdina.  Allt verklagið er unnið út frá að fyllsta öryggis og mannúðarsjónarmiða sé gætt.  Ef um börn er að ræða hefur lögregla samband við viðkomandi stofnun í því bæjarfélagi og tilkynnir um aðgerðir.

Þegar ferðast er frá landinu með áætlunarflugi (morgunflugi) er nauðsynlegt að vera tímanlegur og eins og allir aðrir farþegar sem fljúga með sama flugi þarf að ferðast uppá flugvöll þegar myrkur er stóran hluta árs á Íslandi.  Ekki er verið að vinna í „skjóli myrkurs“ til þess að fela eitthvað heldur er um að ræða eðlilegar tímasetningar til þess að ná áætluðu flugi.

Stoðdeildin starfar í öllum sínum málum ávallt með öryggi og mannúðarsjónarmið að megin markmiði og samkvæmt gildandi lögum og reglum í landinu.

Í umræddu máli sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga skal það tekið fram að lögreglumenn stoðdeildar óskuðu eftir viðveru fulltrúa barnaverndar á vettvangi.  Einnig voru það lögreglumenn stoðdeildar sem tóku ákvörðun um að fresta framkvæmd og tók starfsmaður barnaverndar á engan hátt þátt í þeirri ákvörðun eða kom á nokkurn hátt nálægt annarri ákvörðunartöku lögreglu á vettvangi eða gaf lögreglu fyrirmæli á neinn hátt enda ekki með vald eða umboð til þess.