12 Mars 2021 09:48

Stöðufundur var í gær með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúum Múlaþings, Veðurstofu, fulltrúa heimastjórnar á Seyðisfirði og fleirum. Farið var að venju yfir gang hreinsunarstarfs, bráðabirgðahættumat og líkanreikninga, vöktunarmæla, rýmingarkort og fleira.

Síðustu vikuna hefur mest verið unnið á svæðinu við Slippinn. Þar hefur verið unnið við að stækka þrónna og færa efni yfir í syðri varnargarðinn og stækka hann. Hönnun á ræsi og skurði við Hafnargötu var lokið og nú er ræsaefni komið á staðinn. Sökum bleytu hefur verk aðeins tafist frá því á miðvikudag en verður fram haldið á fullu þegar skilyrði lagast.

Áfram er unnið að útfærslu á þverun Búðarár og Hafnargötu og við undirbúning varna við Botnahlíð.

Mælakerfið sem sett hefur verið upp skilar gögnum og skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist með þeim daglega. Fleiri GPS-tæki og speglar verða settir upp á næstu vikum þannig að fyrirhugað mælakerfi í fyrsta forgangi verði komið upp fyrir vorleysingar. Lokið hefur verið við líkanreikninga vegna hættumats við Múla. Túlkun þeirra er langt komin og gert er ráð fyrir að gefa út hættumat fyrir svæðið í byrjun næstu viku. Efla hefur skilað landlíkani með bráðabirgðavörnum fyrir byggðina innan Búðarár og stendur nú til að kanna virkni þeirra með líkanreikningum

Rýmingarkort eru í vinnslu sem og útgáfa á leiðbeiningarblöðum til dreifingar í hús á Seyðisfirði, en þar má meðal annars finna ráð til íbúa um það hvernig rétt sé að bera sig að komi til rýmingar.

Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar er ekki lengur með viðveru í Herðubreið. Starfsfólk miðstöðvarinnar tekur sem fyrr við fyrirspurnum og athugasemdum í síma 839-9931. Einnig er hægt að senda netpóst á netfangið sey@logreglan.is

Spurningar sem hafa borist í kjölfar íbúafunda og til þjónustumiðstöðvar eru settar með svörum á vef Múlaþings, mulathing.is jafnóðum og þau berast. Þar má finna fróðleik og svör við mörgum spurningum. Félagsþjónusta Múlaþings býður upp á viðtöl á mánudögum í Íþróttahúsi Seyðisfjarðar. Sálfræðiþjónusta er í boði á miðvikudögum á heilsugæslu HSA á Seyðisfirði, símapöntun í síma 470-3000.