19 Febrúar 2008 12:00

Lögreglan á Selfossi handtók par á Selfossi vegna gruns um þjófnað á greiðslukorti og að hafa notað það til að svíkja út vörur í verslunum þar í bæ.  Rétt fyrir hádegi í gær, mánudag, kom maður í löreglustöðina og greindi frá því að greiðslukorti hans hefði verið stolið síðastliðinn föstudag úr veski hans sem hann geymdi í yfirhöfn í læstum fataskáp á vinnustað sínum á Selfossi.  Á laugardagsmorgun komst hann að því er hann fór inn á heimabanka sinn að á föstudag hefðu verið teknar út vörur í þremur verslunum á Selfossi.  Lögreglumenn fóru þegar af stað til að finna út hver hafi komið í þessari verslanir á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað.  Ekki voru liðnar tvær klukkustundir frá því kæran barst að lögreglumenn höfðu fundið hver fjársvikarinn var og í beinu framhaldi var stúlka og piltur handtekin.  Þau viðurkenndu að hafa staðið saman að þjófnaðinum á kortinu og úttektinni.