26 Mars 2013 12:00

Að gefnu tilefni vill lögreglan á Vestfjörðum minna á þær kvaðir sem gilda um nokkur sumarhús og hverfi er lúta að banni við sólarhringsdvöl.

Þannig er sólarhringsdvöl bönnuð á tímabilinu frá 15. desember til 15. apríl í sumarhúsunum í Tunguskógi í Skutulsfirði.  Þá er sólarhringsdvöl bönnuð á tímabilinu frá 1. nóvember til 30. apríl í Teigahverfi í Hnífsdal, gamla þorpinu í Súðavík, Sólbakka á Flateyri, Seljalandi og Grænagarði á Ísafirði.

Þessar ráðstafanir eru gerðar í þágu öryggis og snjóflóðavarna og ætti öllum húseigendum á þessu svæði að vera ljóst.  Lögreglan mun hafa eftirlit með því að þessar takmarkanir séu virtar.