6 Október 2023 09:45
  • Fyrsta samstarfsyfirlýsingin um svæðisbundið samráð um afbrotavarnir undirrituð á Austurlandi.
  • Öll sveitarfélög á Austurlandi standa að yfirlýsingunni ásamt helstu lykilaðilum á svæðinu.
  • Vísbendingar um að umfang ofbeldisbrota á Austurlandi sé sambærilegt og í öðrum landshlutum.
  • Aðeins hluti mála tilkynntur til lögreglu og annarra lykilaðila.

Lögreglustjórinn á Austurlandi, sýslumaðurinn á Austurlandi, sveitarfélögin Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur, Múlaþing og Vopnafjarðarhreppur, Austurbrú – Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Austurlandsprófastsdæmi, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskólinn Austurlands og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hafa ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum undir heitinu Öruggara Austurland.

Undirrituð var samstarfsyfirlýsing þess efnis um svæðisbundið samráð um afbrotavarnir á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum miðvikudaginn 6. október. Er samstarfsyfirlýsingin um Öruggara Austurland sú fyrsta af sínu tagi. Þá var farið yfir lykiltölur vegna afbrota á svæðinu, með áherslu á börn og ofbeldi.

Sjá yfirlýsingu: Öruggara Austurland-2 (1)

Svæðisbundnar afbrotavarnir á landsvísu

Svæðisbundið samráð hefur ítrekað sýnt mikilvægi sitt í að auka öryggi íbúa og vinna gegn afbrotum. Má þar m.a. nefna heimilisofbeldisverklag lögreglunnar í samvinnu við félagsþjónustu og barnaverndarþjónustu, þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, samvinnu um öruggara og ofbeldislaust skemmtanalíf og forvarnarstarf vegna áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna.

Lögreglu er falið að vinna að afbrotavörnum skv. 1. gr. 2.tl.  lögreglulaganna. Dómsmálaráðuneytið hefur lagt áherslu á afbrotavarnir þ.m.t. fræðslu og forvarnir og falið ríkislögreglustjóra samhæfingu þess meðal embættanna. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fól ríkislögreglustjóra í samvinnu við lögregluembættin  ábyrgð á aðgerð C.6 Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi í þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þessum fyrir árin 2019-2022. Því hefur verið unnið að fjölgun lögreglumanna til að sinna samfélagslöggæslu og að efla svæðisbundið samráð á landsvísu með helstu lykilaðilum og lögregluembættunum.

Mikilvægur þáttur í afbrotavörnum er samfélagslöggæsla þar sem byggð eru sterk tengsl á milli lögreglu og nærsamfélaganna. Með sameiginlegum viðburðum, samráðsfundum og gagnkvæmum heimsóknum byggist upp samskipti, traust og tilfinning fyrir sameiginlegri ábyrgð samfélagsins á afbrotavörnum. Þá eru forvarnir og fræðsla lykilverkfæri í afbrotavörnum.

Markmið svæðisbundna samráðsins um Öruggara Austurland verður m.a. að auka enn frekar samvinnu og samlegðaráhrif í þeim afbrota- og forvarnarverkefnum sem þegar eru í vinnslu, leita leiða til að vinna enn frekar saman í úrlausn þeirra ofbeldismála sem eru í vinnslu hjá samstarfsaðilum og vinna í takt við önnur verkefni í þágu almannaheilla á Austurlandi s.s. innleiðingar á farsæld barna, lýðheilsuvísa, áætlanir sveitarfélaga o.fl.

Tölfræði um Austurland

Greining gagna er undirstaða svæðisbundna samráðsins um afbrotavarnir.  Á þeim grunni er hægt að meta hver m.a. hver er þróun afbrota, heita reiti og mögulegan vanda í uppsiglingu. Hér má sjá yfirlit yfir tilkynnt mál um kynferðisbrot, heimilisofbeldi og ítrekað ofbeldi í nánu sambandi á tímabilinu 2007-2021 hjá lögreglustjóranum á Austurlandi.

Í þolendakönnun lögreglunnar sem unnin er árlega meðal einstaklinga 18 ára og eldri af gagnavísinda- og upplýsingadeildinni er meðal annars spurt um reynslu fólks af afbrotum.  Á tímabilinu 2018-2022 sögðust árlega að meðaltali 2,4% svarenda hafa orðið fyrir ofbeldisbroti og 2,6% hafa orðið fyrir kynferðisbroti á landsvísu. Þá kemur einnig fram í könnuninni að aðeins hluti af þessum málum eru tilkynnt til lögreglu.

Í uppbyggingu á svæðisbundnu samráði um afbrotavarnir er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni.  Þar sem þolendakönnun lögreglunnar nær ekki til barna er horft til samvinnu við Íslenskar æskulýðsrannsóknir og Rannsóknir&greiningu um upplýsingar um brot sem börn kunna að verða fyrir. Hér má sjá samanburð á gögnum lögreglu og R&G úr könnuninni 2022 fyrir Austurland og á landsvísu.

Þá má sjá hér dæmi um svör úr könnun Íslenskrar æskulýðsrannsóknar 2023 þar sem spurt var hvort barn hafi orðið vitni að eða heyrt foreldri eða umönnunaraðila verða fyrir höggum, spörkum eða verið viljandi slasað á heimili þeirra einhvern tímann um ævina (heildartölur barna og skipt eftir kyni).

Og hvort þau hafi sagt einhverjum frá heimilisofbeldinu sem foreldri eða umönnunaraðili varð fyrir (heildartölur barna og skipt eftir kyni).

Niðurstaðan gefur ákveðnar vísbendingar um umfang þessara mála og að aðeins er verið að segja frá hluta þessara mála. Mun meiri upplýsingar má sjá í Farsældarvísunum frá Íslenskum æskulýðsrannsóknum sem samráðsvettvangurinn fær til frekari vinnslu. Þessi gögn ásamt fleiri voru kynnt á fyrsta fundi Öruggara Austurlands.