24 Nóvember 2023 12:25
  • Samstarfsyfirlýsing um svæðisbundið samráð um ofbeldis- og afbrotavarnir undirrituð á Suðurnesjum.
  • Öll sveitarfélög á Suðurnesjum standa að yfirlýsingunni ásamt lykilaðilum á svæðinu.
  • Stefnt að opnun Velferðarmiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis í byrjun næsta árs á grunni samstarfsins.

Fyrsti samráðsfundur um svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum var haldinn í Duus Safnahúsi í Reykjanesbæ í gær. Það voru Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Sýslumaðurinn á Suðurnesjum  sem stóðu að fundinum. Í lok hans var undirrituð samstarfsyfirlýsing um verkefnið Öruggari Suðurnes sem felst í því að hefja og formfesta svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum setti fundinn og bauð fólk velkomið. Í framhaldinu ræddi Sigþrúður Guðmundsdóttir verkefnisstjóri verkefnisins um tölfræði yfir ofbeldi á Suðurnesjum og upplifun íbúanna af öryggi og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnisstjóri fjölmenningar hjá Reykjanesbæ um sérstöðu Suðurnesja þegar kemur að fjölmenningarlegri íbúasamsetningu svæðisins. Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hélt erindi um sérstöðu svæðisins frá sjónarhorni lögreglu. Í lokin fengu fundargestir að heyra stuttar hugleiðingar fólks um ofbeldi og ofbeldisvarnir en undir þeim lið töluðu Hilmar Jón Stefánsson, félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustu Suðurnesjabæjar og Voga, Sonný Norðfjörð Gunnarsdóttir og Betsý Árna Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingar á HSS, starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima, þau Gunnhildur Gunnarsdóttir, Thelma Hrund Ólafsdóttir og Ólafur Bergur Ólafsson og frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja þau Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir, félagsráðgjafi og Leó Máni Quyen Nguvén formaður nemendafélags FS og Valur Axel Axelsson markaðsstjóri nemendafélagsins.

Mikill samhljómur var um mikilvægi þess að beina afbrotavörnum að börnum og ungu fólki og að virkja foreldra í þeirri vinnu. Svæðisbundnar áskoranir og tækifæri voru rædd, meðal annars alþjóðaflugvöllur í túnfætinum, hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna og sterk hefð fyrir samvinnu milli kerfa. Fundargestir lýstu miklum áhuga á enn þéttara samstarfi og í þeim anda var gleði við undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar en með henni skuldbinda samstarfsaðilar sig til að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum með sameiginlegum markmiðum og aðgerðum.

Næstu skref Öruggari Suðurnesja verður opnun á Velferðarmiðstöð Suðurnesja fyrir þolendur ofbeldis á nýju ári og gerð sameiginlegrar framkvæmdaáætlunar til að fylgja eftir áherslum samráðsfundarins.

Samstarfsyfirlýsing, bls 1 og 2.