31 Mars 2010 12:00

Ríkislögreglustjóra barst fyrirspurn frá Pressunni varðandi ályktun Blaðamannafélags Íslands.  Hér á eftir fer svar ríkislögreglustjóra.

Ályktun Blaðamannafélags Íslands (BÍ) kom starfsmönnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra á óvart. Samstarf við fjölmiðla hefur verið gott og rétt að geta þess að hvorki stjórn BÍ eða einstaka fréttamenn hafa haft samband við starfsmenn almannavarnadeildar eða lögreglustjórann á Hvolsvelli og borið fram kvartanir í þá veru sem ályktunin kveður á um. Margir hafa hins vegar þakkað gott samstarf og hrósað því skipulagi sem samskipti við fjölmiðlamenn eru unnin eftir.

Fréttastjóra RÚV þótti t.d. ástæða til að senda lögreglustjóranum á Hvolsvelli í tölvupósti þakkir fyrir samstarfið. Þar segir m.a. „Samstarfsfólk mitt bar lofsorð á samstarfið við þig og þitt fólk vegna vinnu okkar í tengslum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi.„ Sama er að segja um afstöðu fréttamanna sem voru í eldlínunni frá RÚV og Stöð 2.

Allt frá því að Almannavarnir ríkisins voru lagðar niður árið 2003 og verkefnin færð til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur verið lögð á það rík áhersla að starfsmenn almannavarna eigi gott samstarf við fjölmiðla. Sérstök skírteini fyrir fjölmiðla eru gefin út til að tryggja aðgang þeirra að vettvangi í almannavarnaástandi. Sjá meðfylgjandi umburðarbréf ríkislögreglustjóra til allra lögreglustjóra, Lögregluskóla ríkisins og fréttastofa fjölmiðla frá árinu 2004. Þeir fréttamenn sem þau skírteini báru komust sinna ferða um svæðið aðfaranótt 21. mars sl. Reynt var eftir bestu getu að liðka um fyrir öðrum fréttamönnum sem ekki höfðu orðið sér úti um skírteini.

Hafa ber í huga að það svæði sem var lokað var skilgreint hættusvæði fyrstu klukkutímana og rýming íbúa algjört forgangsmál. Aðgangur að svæðinu var því eðlilega takmarkaður þar til mat á hættu lá fyrir. Aðstæður á leið að eldstöðinni fyrstu klukkustundirnar voru mjög slæmar og þurftu vísindamenn og björgunarsveitarmenn frá að hverfa. Einnig fengu fjölmiðlamenn heimild til að reyna að komst að gosinu en urðu einnig frá að hverfa auk þess sem bjarga þurfti einum bíl með fjölmiðlamönnum uppúr Skógá.

Varðandi aðgengi fjölmiðla í leiðöngrum vísindamanna skal bent á að í fyrsta flug Landhelgisgæslunnar fóru bæði kvikmyndatökumaður og ljósmyndari sem fulltrúar allra fjölmiðla. Auk þess fór fréttamaður og kvikmyndatökumaður í fyrsta leiðangur vísindamanna að eldstöðinni sem þó varð frá að hverfa vegna veðurs. Þær myndir sem getið er um í ályktun BÍ frá björgunarsveitarmönnum eru teknar af þeim einu sem tókst að komast að eldstöðinni. Almannavarnir banna ekki björgunarsveitarmönnum að taka og dreifa myndum til fjölmiðla.

Það er almannavörnum hagur að samstarf við fjölmiðla sé gott og því eðlilegt að fara með gagnrýnum huga yfir það sem gert var og læra af reynslunni. Ríkislögreglustjóri hefur óskað eftir fundi með formanni BÍ til að fara yfir málið.

Umburðarbréf ríkislögreglustjóra frá árinu 2004 um útgáfu skírteina fyrir fjölmiðla má nálgast hér.