10 Apríl 2012 12:00

Eitt af því sem svikahrappar taka sér fyrir hendur þessi misserin er að hringja í fólk og bjóða fram aðstoð vegna tölvumála. Hjón á höfuðborgarsvæðinu fengu hringingu af þessu tagi en á hinum enda línunnar var maður sem þóttist vera starfsmaður Microsoft í Bretlandi. Hinn sami greindi frá því að villa hefði komið upp í tölvu þeirra hjóna og ætlaði maðurinn að vera svo vinsamlegur að leysa vandann. Það ætlaði maðurinn að gera í gegnum símann en fólkið átti fyrst að ræsa tölvuna og síðan að fá frekari leiðbeiningar frá manninum um hvernig það ætti að bera sig að til að losna við villuna í tölvunni! Að baki þessu bjó ekkert annað en að komast yfir upplýsingar hjá fólkinu svo hafa mætti af því fé. Hjónin í þessu tilviki létu ekki blekkjast en einfaldast er að skella á hringjanda þegar svona símtöl berast. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta tilkynnt um svona háttsemi með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is