23 Apríl 2010 12:00

Að morgni síðastliðins mánudags var brotist inn í íbúðarhús í Hveragerði og þaðan stolið fartölvum, sjónvarpsflakkara, myndavél og fleiri hlutum.  Einu vísbendingar lögreglu voru upplýsingar nágranna sem veitti athygli bifreið sem var á ferð í götunni sem húsið stóð við.  Á miðvikudag komust lögreglumenn á Selfossi á slóð bifreiðarinnar í Reykjavík.  Með aðstoð lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu voru þrír menn handteknir og fluttir í fangageymslu á Selfossi.  Við yfirheyrslur viðurkenndu mennirnir að hafa brotist inn í íbúðarhúsið í Hveragerði eftir klukkan átta á mánudagsmorgun og stolið fartölvum og fleiri hlutum.  Þýfinu komu þeir af sér um hádegi sama dag en það var notað til greiðslu á fíkniefnum sem einn mannanna ætlaði til sölu.  Við húsleit hjá þeim manni fundust 126 tilbúnir skammtar í söluumbúðum af því sem gengur undir nafninu “skunkur” sem er þurrkað maríjúanna.  Maðurinn viðurkenndi að hafa ætlað að selja efnið.  Í þessu tilviki var það nágrannavarsla sem leiddi til þess að málið upplýstist.