9 Maí 2012 12:00

Með hækkandi sól hefur talsvert borið á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu og því vill lögreglan beina þeim tilmælum til ökumanna að þeir flýti sér hægt. Nú er mikið af nýjum vegfarendum í umferðinni, m.a. á reiðhjólum og bifhjólum, og því afar mikilvægt að sýna aðgæslu. Sérstaklega er viðbúið að reiðhjólamenn verði áberandi í umdæminu næstu vikurnar en nú er hafið hvatningarátakið Hjólað í vinnuna en þátttakendur munu væntanlega skipta þúsundum. Sem fyrr er nauðsynlegt að allir í umferðinni sýni tillitssemi því þá gengur allt betur og öruggar fyrir sig. Lögreglan undirstrikar jafnframt að í tillitssemi felst líka að leggja löglega. Talsvert er um að gangstéttir og göngustígar séu notaðir sem bílastæði. Slíkt skapar bæði hættu og óþægindi fyrir aðra vegfarendur, gangandi eða hjólandi, og það ættu ökumenn að hafa hugfast.