4 September 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina fimm manns sem voru á leið í Reykjanesbæ með um 30 grömm af amfetamíni meðferðis. Lögreglumenn stöðvuðu bifreið á Reykjanesbraut sem fólkið, fjórir karlmenn og ein kona, voru í. Einn mannanna henti þá strax frá sér kúlu sem innihélt fíkniefni. Við leit fundust svo tuttugu og átta  pakkningar til viðbótar, samtals um þrjátíu grömm, eins og áður sagði. Fólkið var fært á lögreglustöð, þar sem það var yfirheyrt og sleppt að því loknu. Grunur leikur á að efnin hafi verið ætluð til sölu í Reykjanesbæ.

Fundu tvo fíkniefnapoka

Tveimur pokum með kannabisefnum var komið til lögreglunnar á Suðurnesjum í gær og fyrradag. Annar pokanna fannst fyrir utan skemmtistað í umdæminu, þegar starfsmenn staðarins voru að vinna þar við þrif. Hinn pokinn fannst innan dyra á öðrum skemmtistað. Þar voru starfsmenn einnig við þrif þegar þeir fundu hann undir borði. Báðir pokarnir innihéldu lítið magn af efnum.

Í vímu hjólaði á ljósastaur

Karlmaður á þrítugsaldri slasaðist þegar hann hjólaði á ljósastaur í Reykjanesbæ um helgina. Hann tjáði lögreglunni á Suðurnesjum að hann hefði verið eitthvað ryðgaður í kollinum eftir grasreykingar og því hafnað á staurnum. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gert var að meiðslum hans. Þau munu vera minni háttar. Þá var lögreglu tilkynnt um að ekið hefði verið á ljósastaur í Sandgerði. Sá sem það gerði lét sig hverfa af vettvangi, án þess að gera viðvart um ákeyrsluna.