5 Október 2012 12:00

Rúmlega tvítugur íslenskur karlmaður var stöðvaður við komuna til landsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni, grunaður um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Tollgæslan stöðvaði manninn við hefðbundið eftirlit og gerði lögreglunni á Suðurnesjum viðvart um málið. Maðurinn reyndist vera með neysluskammt af amfetamíni og var hann frjáls ferða sinna eftir að lögregla hafði tekið skýrslu af honum.

Ók á 153 kílómetra hraða

Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarna daga haft afskipti af fimm ökumönnum sem óku of hratt. Sá sem hraðast ók var rúmlega fertugur karlmaður. Bifreið hans mældist á 153 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar. Hinir fjórir mældust á meira en 120 kílómetra hraða. Ökuþórarnir þurfa að greiða umtalsverðar sektir, misháar eftir alvarleika brotanna. Þá klippti lögregla númer af tveimur bifreiðum sem eigendur höfðu trassað að færa til endurskoðunar.

Olíu stolið af vinnuvélum

Tilkynning barst lögreglunni á Suðurnesjum í vikunni þess efnis að olíu hefði verið stolið af tveimur vinnuvélum á Reykjanesi, rétt við Reykjanesvirkjun. Vélarnar höfðu verið fylltar, en þegar komið var að þeim daginn eftir kom í ljós að tankur annarrar þeirra, skurðgröfu, var hálfur, en tankur jarðýtu hafði verið tæmdur. Við vélarnar fundust slanga og töng sem grunur leikur á að hafi verið notaðar við þjófnaðinn. Nýverið var stolið 2- 300 lítrum af olíu af beltagröfu á sama stað. Lögregla rannsakar málið.