21 Apríl 2015 10:44

Erlendur karlmaður situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa gert tilraun til að smygla fíkniefnum til landsins um miðjan mánuðinn. Tollverðir stöðvuðu manninn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í fórum sínum. Lögreglan á Suðurnesjum færði hann síðan til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem staðfest var að hann væri með fíkniefni innvortis. Maðurinn skilaði tíu pakkningum sem reyndust innihalda um það bil 330 grömm af metamfetamíni. Efnunum hafði verið komið fyrir í Kindereggpakkningum.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. apríl næstkomandi. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.