5 Júní 2008 12:00

Í byrjun júní hófst starfsemi Þjálfunarmiðstöðvar fyrir lögregluhunda.  Um er að ræða tímabundið samstarfsverkefni embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Eskifirði, með það að markmiði að styrkja og efla þjálfun og notkun lögregluhunda við löggæslustörf.

Þjálfunarmiðstöðin er á Neskaupsstað, í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði, þar sem öll æskileg aðstaða til menntunar, þjálfunar og æfinga er til staðar.  Þjálfunarmiðstöðin þjónustar hundaþjálfara lögreglu og Fangelsismálastofnunar og verður í góðu samstarfi við Tollgæslu á sviði fíkniefnaleitarhunda.

Steinar Gunnarsson sem verið hefur yfirþjálfari hjá ríkislögreglustjóra tekur nú við því sem fullu starfi og lætur af störfum sem varðstjóri við embætti lögreglustjórans á Eskifirði.  Þessi breyting gefur starfi yfirþjálfara meira vægi og svigrúm en áður hefur verið til þess að sinna og fylgjast betur með starfandi teymum lögregluhunda og viðhalda þeim gæðakröfum sem settar hafa verið.

Steinar mun sinna útköllum og fyrirfram skipulögðum verkefnum tengt fíkniefnaleitum í umdæminu og í nærliggjandi umdæmum.  Þá er áfram lögð áhersla á gott samstarf lögreglu og tollgæslu, sérstaklega tengt fíkniefnaleit í Norrænu sem kemur vikulega að landi á Seyðisfirði.

Steinar Gunnarsson yfirþjálfari við æfingar

Fíkniefnaleitarhundarnir Dollar, Codie, Luna og Kiza