4 Ágúst 2009 12:00

Nú er þjóðhátíð Vestmannaeyja 2009 lokið og gestir farnir að streyma til síns heima. Herjólfur siglir allan sólarhringinn næstu daga og loftbrú er með flugi milli lands og Eyja við að flytja fólk til síns heima.

Síðasta nóttin var róleg framan af en undir morgun þurfti lögreglan að sinna mörgum útköllum, bæði í Herjólfsdal og bænum sjálfum. Um var að ræða slagsmál og ölvunarvandræði. Nokkrir fengu að gista fangageymslu sl. nótt þar sem þeir voru til vandræða á Hátíðarsvæðinu. Í gærkveldi var sparkað í lögreglumann og var sá aðili handtekinn og gisti fangageymslu í nótt.

Síðdegis í gær var gerð fíkniefnaleit í húsi í bænum þar sem þjóðhátíðargestur var til húsa. Í leitinni fundust um 40 grömm af amfetamíni. Einn aðili viðurkenni að eiga efnin.

Alls komu um 25 fíkniefnamál upp á þjóðhátíðinni. Langmest var um að haldlagt væri amfetamín í þessum málum.  Tíu líkamsárásir voru kærðar engin þó mjög alvarleg.

Ekkert kynferðisbrot var kært til lögreglunnar í Vestmannaeyjum þessa hátíð.

Á daglegum samráðsfundi lögreglustjóra með fulltrúum sem koma að gæslu, hátíðarhaldara, sjúkra-og sálgæslu voru þessir aðilar sammála að Þjóðhátíð 2009 hafi gengið vel þetta árið þrátt fyrir að hér hafi verið milli þrettán og fjórtán þúsund gestir að skemmta sér.