2 Ágúst 2010 12:00

Nú er Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2010 lokið og gestir byrjaðir að streyma til síns heima.  Herjólfur mun sigla 8 ferðir næsta sólarhringinn með farþega af þjóðhátíð.  Þá eru áætlaðar 32 ferðir með Flugfélagi Íslands til Reyjavíkur og í dag er loftbrú milli Bakkaflugvallar og Eyja með minni vélum.  Það byrjaði að rigna þegar leið á nóttina og bæta í vind og er spáin að áfram rigni í dag en lægi með kvöldinu.  Ekki er þó búist við að það lokast fyrir flug.

Síðastliðin nótt fór vel fram og var mjög róleg hjá lögreglu og óvenju fá verkefni bókuð í málaskrá lögreglunnar.  Tveir aðilar gistu fangageymslu vegna ölvunar og óspekta. Engin líkamsárásarkæra barst lögreglunni síðastliðna nótt.  Samtals voru kærðar 12 líkamsárásir til lögreglunnar yfir þjóðhátíðina en engin þeirra mjög alvarleg.  Nokkur fíkniefnamál bættust við frá því um miðjan dag í gær og er samtals fjöldi þeirra þessa hátíð orðin um 40 talsins.  Haldlagt efni er nálagt 300 grömmum og þar um helmingur amfetamín, einnig nokkuð magn af kókaíni.  Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.  Af öðrum málaflokkum er það helst að 7 þjófnaðir hafa verið kærðir til lögreglu.

Það er mat lögreglunnar að þjóðhátíð 2010 hafi heilt yfir farið vel fram og hún hafi gengið stórslysalaust fyrir sig, þegar þetta er skrifað.  Veður var einmuna gott þessa hátíð og hefur það mikið að segja. Undirbúningur hátíðarhaldara, bæjaryfirvalda og lögreglunnar var með þeim hætti að þjóðhátíð 2010 yrði sú fjölmennasta frá upphafi og reyndist svo vera og áætlar lögregla að um 16.000 til 17.000 þúsund manns hafi verið á brekkusöngnum í gærkveldi.