6 Ágúst 2007 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunni sl. nótt og gistu þrír fangageymslu lögreglunnar sl. nótt fyrir ölvun og óspektir í Herjólfsdal. Mest var að gera hjá lögreglunni þegar komið var undir morgun.

Í nótt var aðili fluttur á sjúkrahúsið eftir að hafa fengið höfuðáverka eftir slys og í framhaldi var hann fluttur með þyrlu LGH á sjúkrahús í Reykjavík.

Þjóðhátið 2007 var með þeim fjölmennari sem haldin hefur verið. Áætlað er að vel yfir tíuþúsund manns hafi verið á kvöldvökunni í gærkvöldi þegar brekkusöngurinn fór fram.

Á þessari hátíð komu upp 11 fíkniefnamál sem er mun færi mál en undanfarin ár og eins og áður hefur komið fram var mjög öflugt eftirlit með þessum málaflokki þessa hátíð. Í öllum þessum málum var lítið efni að ræða nema í einu tilviki var aðili handtekinn með 14 skammta af efninu LSD.

Fimm líkamsmeiðingar mál voru kærð til lögreglunnar og eru þau í rannsókn. Í einu tilvikinu var að ræða að aðili tannbrotnaði er hann var sleginn. Ekki er þó ljóst hvort öllum þessum málum verður fylgt eftir.

Af umferðarmálum er það helst að frétta að þrír voru teknir grunaður um ölvun við akstur og einn kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Fimm voru kærðir fyrir akstur án ökuréttinda. Átta aðilar voru kærðir fyrir að vera ekki með beltin spennt og tveir fyrir að hafa ekki öryggishjálm við akstur léttbifhjóls.

Eitt blygðunarsemisbrot var kært til lögreglunnar er aðili sem var í skotapilsi beraði sig fyrir fyrir gesti kvöldvökunnar.

Níu eignaspjöll voru kærð til lögreglunnar þessa helgi. Þar var um að ræða skemmdir sem voru unnar á tjöldum, skemmdir á ökutækjum og rúðubrot í bænum. Fimm þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar. Í tveim tilvikum að gítar stolið frá gestum hátíðarinnar.

Í heild sinni tókst þjóðhátíð Vestmannaeyja 2007 mjög vel og var með þeim rólegri seinn ár og vill lögreglan í Vestmannaeyjum hrósa þeim gestum sem sóttu hátíðina heim þetta árið. Óhætt er að segja að sú langa hefð hagsmunaraðila við skipulagningu á þessari hátíð á sinn þátt í hvað vel hefur tekist til.

Mjög gott veður er nú í Eyjum og var byrjað var að fljúga kl.05:00 í morgun upp á Bakkaflugvöll og Herjólfur fór sína fyrstu ferð til Þorlákshafnar  kl.11:00 í morgun með gesti þjóðhátíðar. Búist er við að seinnipartinn á morgun verði búið að koma þeim gestum sem sóttu hátíðina þetta árið til síns heima. Heimamenn fara hins vegar í að taka niður hvítuhústjöldin og þrífa Herjólfsdal.