31 Júlí 2009 12:00

  Í dag er þjóðhátíð sett í Vestmannaeyjum í glaðasólskini og veðurblíðu.  Mikill fjöldi gesta hefur streymt til Eyja síðustu daga og er það samdóma álit manna að aldrei nokkru sinni hafi fleiri verið mættir til Eyja á fimmtudegi fyrir hátíðina.  Í gærkveldi hófst aðdragandi Þjóðhátíðar með svokölluðu Húkkaraballi.  Mikill erill var í nótt hjá lögreglu og nokkuð um pústra, en ölvun var mikil í bænum og voru 4 óspektarseggir látnir sofa úr sér í fangageymslum lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Eitt líkamsárásarmál var kært eftir nóttina en engin alvarlegri mál komu þó upp þrátt fyrir mikinn mannfjölda.