5 Ágúst 2013 12:00

Mikill erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt og þá sérstaklega var mikið að gera undir morgun. Um hádegi voru allar fangageymslur lögreglu fullar.

Skömmu eftir miðnætti var maður handtekinn í Herjólfsdal eftir að tvítug stúlka kærði hann fyrir að hafa neytt sig til munnmaka. Var maðurinn, sem er fertugur, vistaður í fangageymslu og verður fluttur á Selfoss eftir hádegi í dag til frekari skýrslutöku.  Vitni verða og yfirheyrð í málinu í dag.

Tveir aðilar voru handteknir í bænum fyrir eignaskemmdir, þar sem þeir höfðu rifið númeraplötur af 18 bifreiðum. Þeir voru vistaðir í fangageymslu og verða yfirheyrðir síðar í dag.

Aðrir sem gistu fangageymslur voru þar vegna ölvunar eða höfðu verið til vandræða á hátíðarsvæðinu.

Um fimmtíu fíkniefnamál komu upp á hátíðinni. Heldur eru þetta færri mál en á síðustu hátíð en þá voru þau nálægt sextíu. Tvö af þessum málum voru stærri mál, þar sem lagt hald á um 30 grömm af amfetamíni í hvoru þessara mála. Á þessari hátíð var lagt hald flestar algengar tegundir fíkniefna, svo sem amfetamín, kókaín, maríhúana og LSD.

Engar alvarlegar líkamsárásir hafa komið upp á hátíðinni, en tvær minniháttar árásir hafa verið kærðar en þar var einungis um pústra að ræða.

Veður á hátíðinni hefur verið með besta móti og var logn og gott veður síðastliðna nótt í Herjólfsdal og eru þjóðhátíðargestir nú í óða önn að koma sér til síns heima.