2 Ágúst 2013 12:00

Nokkur erlill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt en þá fór fram svokallað Húkkaraball. Fjögur fíkniefnamál komu upp í gær og í nótt og eru þau mál orðin 6 talsins frá því á miðvikudagskvöld.  Í þessum málum var lagt hald á maríhúana sem var sagt til eiginneyslu. Einn gisti fangageymslu vegna ölvunar. Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum einstaklingum  vegna ölvunarástands og slagsmála.

Í nótt var lögreglunni tilkynnt um mann sem væri með haglabyssu fyrir utan hús í bænum. Þegar lögreglumenn komu á staðinn var maður þessi sofandi inní húsinu. Í herberginu þar sem maðurinn svaf fundust tvær haglabyssur sem hann var ekki skráður fyrir.  Ekki var hægt að yfirheyra þennan aðila vegna ölvunarástands en hann verður boðaður í skýrslutöku síðar. Byssurnar voru haldlagðar og færðar í geymslu lögreglu.

Eins og komið hefur fram er lögreglan í Vestmannaeyjum með mikinn viðbúnað þessa helgi. 25 lögreglumenn verða á vakt um helgina og að auki eru að störfum 2 fíkniefnahundar. Fyrir utan lögregluliðið verða hátíðarhaldarar með á annað hundrað gæsluaðila á sínum vegum á mestu álagstímum, auk annars viðbúnaðar lækna, björgunar- og slökkviliðs.

Hátíðin verður sett í dag kl. 14:30 og þá hefst formleg dagskrá. Búist er við miklum fjölda gesta að þessu sinni og er mikið bókað með farþegaferjunni Herjólfi og með flugi, bæði úr Reykjavík og af Bakka í Landeyjum.