4 Ágúst 2014 12:00

Nokkur erlill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt en þó engin alvarleg mál sem komu upp.  Tveir gistu fangageymslu, annar vegna ölvunarástands og hinn fékk gistingu að eigin ósk. Töluverður vindur var í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og nótt og tjöld farin að fjúka í Herjólfsdal og á öðrum tjaldsvæðum í bænum. Engin úrkoma var þó með þessum vindi og fólk þá ekki í neinni vosbúð. Það var tekin ákvörðun að opna íþróttahúsin fyrir þá sem höfðu misst tjöldin sín og hefðu engan samastað til að halla sér. Töluverður fjöldi nýtti sér þessa þjónustu íþróttafélagsins.  

 Tíu fíkniefnamál bættust við síðasta dag þjóhátíðar og voru þau þá yfir 50 talsins þessa daga. Allt voru þetta svokallaðir neysluskammtar. Efnin sem haldlögð voru eru, kannabis, kókaín, amfetamín, E-töflur.

Fimm líkamsárásir voru kærðar til lögreglunnar þessa daga. Í engu þessara mála var um alvarleg meiðsli að ræða. Ekki er vitað um gerendur í öllum þessum málum en rannsókn er þó í gangi hjá lögreglunni.

Af umferðarmálum er það að segja að 4 ökumenn voru kærðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir vegna gruns um ölvun við akstur. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir réttindaleysi.

Það er mat lögreglunnar í Vestmannaeyjum að þjóhátíð Vestmannaeyja 2014 hafi farið að mestu vel fram og sérstaklega miðað við þann mikla fjölda gesta sem voru á hátíðinni þetta árið. Ljóst er að um fjölmennustu þjóðhátíð frá upphafi. Talið er að 15 til 16 þúsund manns hafi verið á brekkusöngnum í gærkvöldi.

Nú eru gestir hátíðarinnar farnir að streyma frá Eyjum. Þrátt fyrir nokkurn vind í Eyjum hefur það ekki haft áhrif á samgöngur. Herjólfur mun sigla 10 ferðir frá því kl.02:00 í nótt og framyfir miðnætti í dag. Einnig mun farþegabáturinn Vikingur sigla nokkrar ferðir til Landeyjarhafnar.  Þá er loftbrú með flugi frá Eyjum á Bakkaflugvöll og til Reykjavíkur. Það er þó ljóst að ekki munu allir gestir hátíðarinnar komast heim fyrr en á þriðjudag og er það einlæg ósk lögregunnar í Vestmannaeyjum að allir komist heilir til síns heima. Ökumenn fari ekki of snemma af stað eftir skemmtun helgarinnar og sýni þolinmæði í umferðinni á fastalandinu þar sem þung umferð verður frá Landeyjarhöfn.