30 Júlí 2010 12:00

Mikill fjöldi gesta eru nú þegar mættir á þjóðhátíð Vestmannaeyja og í gærkvöldi áætlar lögregla að á sjöunda þúsund manns hafi verið komnir til Eyja og stöðugt hafi bæst við í nótt og morgun.

Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt.   Sex fíkniefnamál komu upp í gærkvöldi og í nótt, í einu málinu voru haldlögð 8 grömm af nokkuð hreinu amfetamíni.  Í hinum málunum var um að ræða minni skammta af kannabis og amfetamíni.

Þrír voru kærðir fyrir líkamsárásir og gistu þeir fangageymslu.  Í einu tilfellinu nefbrotnaði aðili og í öðru hlaut dyravörður á „Húkkaraballinu“ skurð eftir að gestur sló hann.  Undir morgun voru fangageymslur lögreglunnar í Vestmannaeyjum fullar.  Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og var annar einnig undir áhrifum áfengis og að auki hafði hann verið sviptur ökuréttindum.

Í dag kl. 14:30 verður hátíðin sett og í dag halda gestir áfram að streyma til Eyja.  Á áætlun Flugfélag Íslands eru 13 ferðir og þá verður loftbrú frá Bakkaflugvelli til Eyja.  Herjólfur mun fara sjö ferðir framá næstu nótt og er fullbókað í allar ferðir, nema í ferð sem fer kl. 03:00 næstu nótt frá Landeyjahöfn.

Lögreglan vill hvetja foreldra til að brýna fyrir börnum sínum þeim hættur sem leynst geta á útihátíðum og telur að ungmenni yngri en 18 ára eigi þangað ekkert erindi nema í fylgd með fullorðnum.  Á hátíðarsvæðinu verða starfsmenn félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar með vakt til grípa inní eða aðstoða ef ungmenni undir lögaldri eru á vergangi á hátíðinni.