6 Ágúst 2012 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt. Rólegra var þó fyrrihluta nætur en þegar líða tók á nóttina fjölgaði útköllum.

 Tveir gistu fangageymslu vegna líkamsárása og var önnur þeirra alvarleg en þá sló maður annan þannig að hann nefbrotnaði og tvær tennur brotnuðu. Í hinu tilfellinu réðst maður á fyrrverandi kærustu sína. Heildarfjöldi líkamsárásarmála á hátíðinni eru nú átta talsins og tvö málana alvarleg.

 Tvö kynferðisbrot voru kærð til lögreglunnar í nótt, en bæði brotin áttu sér stað inni í Herjólfsdal. Önnur stúlkan er 17 ára og hin á þrítugsaldri. Ekki er vitað hverjir gerendur eru. Lögreglan vinnur úr upplýsingum og leitar brotamannanna. Þrjú kynferðisbrot hafa því verið kærð til lögreglunnar í Vestmannaeyjum þessa helgi.

 Tólf fíkniefnamál komu upp á hátíðinni frá því í gærdag og er heildarfjöldi þeirra á hátíðinni orðin 52. Öll málin eru svokölluð neyslumál. Haldlögð efni voru amfetamín, kókaín, maríjuna og ofskynjunarsveppir.

 Af umferðarmálum er það að segja að tveir voru kærðir fyrir ölvun við akstur, einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir akstur sviptur ökuleyfi þessa helgi.

 Fimm þjófnaðarmál voru kærð um helgina um var að ræða þjófnað á gsm-farsímum og  tvær kærur  vegna þjófnaða úr tjöldum.

 Þjóðhátíðargestir eru nú að streyma frá Vestmannaeyjum og byrjaði Herjólfur að flytja fólk frá Eyjunni klukkan tvö í nótt og mun skipið fara 16 ferðir næstu tvo sólarhringana með farþega í Landeyjarhöfn. Jafnframt er mikið flutt af fólki með flugi frá Vestmannaeyjum.

 Veðrið hefur leikið við gesti hátíðarinnar mest alla helgina og í nótt var blíðviðri með logni.