9 Nóvember 2012 12:00

Brotist var inn í íbúðarhúsnæði í Vogum í vikunni. Þegar lögreglan á Suðurnesjum mætti á vettvang kom í ljós að gluggi á suðurhlið hússins hafði verið spenntur upp og hinir óboðnu gestir komist inn um hann. Þeir höfðu á brott með sér fartölvu, leikjatölvur, videóvél og mörg fleiri tæki. Þar á meðal var glænýr Ipod, sem ætlaðir var til jólagjafar.

Þá var lögreglu tilkynnt um innbrot í skrifstofuhúsnæði í umdæminu. Þaðan var stolið fartölvu, farsíma, gagnasnúru og eftirlitsmyndavél. Málin eru í rannsókn.

Púuðu á salerni í Leifsstöð

Tilkynningar til lögreglu geta verið af ýmsum toga, eins og dæmin sanna. Nýverið tilkynnti öryggisvörður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar lögreglunni á Suðurnesjum um að tveir karlmenn væru reykjandi inni á salerni í flugstöðinni. Þegar lögregla mætti þangað voru reykingamennirnir komnir fram í töskusal. Lögreglumenn ræddu við þá og kváðust þeir vera að koma frá Kaupmannahöfn. Lögreglan las mönnunum, sem báðir eru á þrítugsaldri, pistilinn og sögðust þeir aldrei myndu reykja inni á salerni oftar.

Handteknir vegna fíkniefnaaksturs

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið fjóra ökumenn, þrjár konur og einn karlmann, sem óku undir áhrifum fíkniefna. Þrjú þeirra voru svipt ökuréttindum. Þá stöðvaði lögregla bifreið, þar sem grunur lék á að farþegi í henni væri í neyslu fíkniefna. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar framvísaði hann kannabisefnum í söluumbúðum. Enn fremur handtók lögreglan konu vegna gruns um ölvun við akstur og kvaðst hún hafa drukkið nokkra bjóra að morgni dags. Loks var karlmaður handtekinn og færður á lögreglustöð, grunaður um ölvunarakstur.