18 September 2013 12:00

Rannsóknarlögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu handtóku ungan lettneskan mann á mánudag í tengslum við rannsókn máls.  Við húsleit á dvalarstað mannsins fannst fatnaður sem rakinn var til gripdeildar í ferðamannaversluninni á Geysi síðastliðinn sunnudag.  Við yfirheyrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi játaði maðurinn að hafa borið vörurnar út úr versluninni við annan mann.  Sá var einnig handtekinn og viðurkenndi aðild.  Mennirnir fóru gagngert að Geysi til að auðgast með þessum hætti.  Þeir gerðu sér nokkrar ferðir inn í verslunina til að bera út fatnað að verðmæti um 1.600.000.00 krónur.  Talið er að allur fatnaðurinn hafi náðst til baka lítið eða óskemmdur.  Eftir er að fara yfir þann þátt málsins.  Mennirnir eru báðir frá Lettlandi og hafa dvalið hér á landi í ein tvö ár.  Að lokinni rannsókn verður málið sent ákæruvaldi til meðferðar.