20 Apríl 2012 12:00
Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um þjófnað Í Nettó í Reykjanesbæ í gær. Sá fingralangi reyndist enn vera í versluninni þegar lögreglumenn mættu á vettvang og skilaði hann vörunum, sem hann hafði tekið, óskemmdum. Þá var lögreglu tilkynnt um þjófnað á fimm gaskútum frá fyrirtæki í Reykjanesbæ í vikunni. Sá eða þeir sem þarna voru að verki höfðu klippt í sundur lás á geymslugrind sem er á bak við fyrirtækið og komist þannig inn í hana. Þeir höfðu á brott með sér samtals 25 kíló af gasi.
Háskaakstur á Bolafæti
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í gær tilkynning um að bifreið væri þanin með glæfralegum hætti um götu í Reykjanesbæ, Bolafót. Þegar lögreglumenn mættu á staðinn var bifreiðin kyrrstæð í götunni og ökumaður hennar á vettvangi. Hann viðurkenndi að bifreiðinni hefði verið ekið hratt í götunni, þar sem vinir sínir hefðu verið að prófa hana. Honum var bent á að götur bæjarins væru ekki vettvangur til að stunda slíkan prufuakstur og kvaðst hann skilja það. Þá var lögreglu tilkynnt um gróðurspjöll sem ökumenn tveggja fjórhjóla höfðu valdið í hlíðum Húsafells. Þeir voru á bak og burt þegar lögregla kom á staðinn en eftir sátu ljót för í fjallshlíðinni. Lögregla minnir á að akstur utan akvega er bannaður.
Innbrotsþjófur flæmdur á brott
Tilkynning um innbrot í heimahús í Reykjanesbæ barst lögreglunni á Suðurnesjum fyrr í vikunni. Farið hafði verið inn um glugga í hjónaherbergi með því að spenna hann upp og var stormjárnið í honum ónýtt eftir atlöguna. Sá sem þarna var að verki hafði ekki erindi sem erfiði því einn heimilismanna kom heim þegar hinn óboðni gestur var að byrja að athafna sig. Heyrði heimilismaðurinn hurð sem lá að sólpalli skellt og mann eða menn hlaupa sem fætur toguðu í burtu. Ekki hafði þeim sem inn braust gefist tími til að stela neinu af heimilinu en hafði þó náð að opna skáp og róta í honum þegar hann var truflaður við athæfið.
Stútur vildi ekki blása
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í nótt sem leið ökumann vegna gruns um að hann væri ölvaður undir stýri. Maðurinn harðneitaði að hafa neytt áfengis í gærkvöld, þótt af honum væri megn áfengislykt. Hann var tvívegis látinn blása í áfengismæli en gaf ófullnægjandi blástur í bæði skiptin. Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann enn látinn blása í áfengismæli en bar því þá við að hann gæti ekki blásið þar sem mælirinn væri stíflaður. Með þessu framferði var litið svo á að hann neitaði að gefa öndunarsýni og honum gerð grein fyrir því að slíkt varðaði, samkvæmt umferðarlögum, 100 þúsund króna sekt, auk árs sviptingar ökuréttinda, að viðbættri sekt og sviptingu fyrir ölvunarakstur. Að því búnu var honum enn gefið tækifæri til að blása en hann þverskallaðist við. Fagaðili var þá fenginn á lögreglustöðina til að taka blóðsýni úr manninum sem hinn síðarnefndi féllst á eftir nokkurt þóf. Prófanir á áfengismælinum sýndu að hann var í fullkomnu lagi.