11 Mars 2021 11:54

Ríkislögreglustjóri telur þörf á að rannsaka sérstaklega ofbeldi gegn öldruðum enda benda rannsóknir til þess að það sé falið, sjaldan tilkynnt og einkenni þess oft ekki þekkt. Í nýútgefinni skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi er farið yfir innlendar og erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið á ofbeldi gegn öldruðum og er ein af niðurstöðum skýrslunnar að það sé tímabært að skoða stöðu þessa hóps eins og hún er í dag. Aldraðir eru sístækkandi hópur og hafa sumar rannsóknir sýnt að ofbeldi sé síður tilkynnt af fórnalömbum í efstu aldurshópum. Auk þess er erfiðara að meta umfang ofbeldis í garð aldraðra þar sem þeir skilgreina ofbeldi með öðrum hætti en yngri kynslóðir.

 • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að tæp 16% fólks sem er 60 ára og eldra verði fyrir ofbeldi
 • Erfitt er að meta umfang ofbeldis í garð aldraðra þar sem þeir skilgreina ofbeldi með öðrum hætti en yngri kynslóðir
 • Greiningardeild ríkislögreglustjóra leggur til að
  • Bakgrunnur starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði kannaður m.t.t. ofbeldishegðunar.
  • Gerðar verði frekari rannsóknir á ofbeldi gagnvart öldruðum á Íslandi.
  • Þekking lögreglu á einkennum ofbeldis gegn öldruðum verði efld.
  • Þekking almennings á ofbeldi gegn öldruðum verði efld

Í skýrslunni kemur fram að tölfræðilegar upplýsingar um ofbeldi gagnvart eldri borgurum á Íslandi séu af skornum skammti. Þó hafa nokkrar rannsóknir og kannanir sem varða sérstaklega ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi verið gerðar á síðastliðnum árum auk þess sem lögreglan, Reykjavíkurborg og embætti ríkislögreglustjóra safni upplýsingum um ofbeldi. Segir greiningardeildin að þær kannanir veiti mikilvægar vísbendingar en fullyrða megi að málefnið þarfnist nánari skoðunar.

 

Lögreglan fái sérstaka þjálfun í að bregðast við ofbeldi gagnvart öldruðum 

Eins og fram hefur komið er lögð áhersla á það að lögregla fái sérstaka þjálfun í að þekkja ofbeldi gegn öldruðum og hafi úrræði til að bregðast við. Þá er sett fram sú hugmynd að lögregla komi að starfsemi athvarfs fyrir aldraða þolendur ofbeldis þar sem í boði verða úrræði sem henta þessum hópi.

 

Andlegt ofbeldi algengasta birtingarmynd ofbeldis gegn öldruðum

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um ofbeldi gegn öldruðum er áætlað að tæp 16% fólks sem er 60 ára og eldra verði fyrir ofbeldi. Þetta samsvarar rúmlega 140 milljónum einstaklinga. Er þá horft til þess ofbeldis sem aldraðir verða fyrir á heimilum sínum eða á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. Í skýrslunni segir líklegt að talan sé talsvert hærri þar sem gögn bendi til þess að aldrei sé tilkynnt um mikinn fjölda brota gegn öldruðum. Andlegt ofbeldi var algengasta birtingarmyndin en næst á eftir kom fjárhagsleg og efnisleg misnotkun, þá vanræksla, líkamlegt ofbeldi og loks kynferðislegt ofbeldi. Þá má gera ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem verður fyrir ofbeldi muni aukast ef ekkert verður að gert þar sem víða um heim fjölgar hratt í eldri aldurshópum.

Í öðrum skýrslum, t.a.m. frá Norðurlöndum, koma fram mun lægri tölur yfir fjölda brotaþola. Þannig kemur m.a. fram í norskri rannsókn að hlutfall aldraðra sem verða fyrir ofbeldi þar í landi er á bilinu 5-7%. Íslenskar rannsóknir hafa ekki leitt í ljós svo afgerandi niðurstöður og þótt vandinn sé án nokkurs vafa til staðar á Íslandi þá er frekari rannsókna þörf. Í skýrslu starfshóps um aldraða og heimilisofbeldi sem birtist haustið 2019 kemur fram að erfitt sé að meta umfang ofbeldis í garð aldraðra. Það skýrist m.a. af því að aldraðir skilgreina sjálfir ekki ofbeldi með sama hætti og yngri kynslóðir og að aldraðir eru ekki endilega tilbúnir til að ræða það ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Að auki getur verið erfitt að fá aldraða til að taka þátt í könnunum.

 

Aukið heimilisofbeldi vegna COVID-19 nær einnig til aldraðra

Í skýrslu greiningardeildarinnar er sérstaklega vikið að COVID-19. Hér á landi hefur lögreglan lýst yfir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi vegna áhrifa faraldursins. Þannig hafði tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um heimilisofbeldi fjölgað um 14% í ágúst 2020 samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára. Þar er einkum um að ræða konur og börn en aldraðir Íslendingar í viðkvæmri stöðu teljast ekki síður vera sérstakur áhættuhópur þegar kemur að ofbeldi. Samtök í Bretlandi og Bandaríkjunum segja að fjöldi tilkynninga um ofbeldi gegn öldruðum þar í landi hafi stóraukist á tíma COVID-19. Áætlað er að tilkynningum aldraðra fórnarlamba ofbeldis í Bretlandi hafi fjölgað um 30%, hið minnsta, eftir að samkomubann var sett á.

 

Leggja til að bakgrunnur starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði kannaður

Greiningardeildin bendir á ýmsar aðgerðir sem huga ætti að, líkt og að efla vitund innan löggæslunnar um ofbeldi gegn öldruðum. Móta ætti stefnu og verklagsreglur sem leggja áherslu á mikilvægi málaflokksins og hvetja til samvinnu milli stofnana. Þá ætti að sérsníða viðbrögð lögreglunnar þar sem hefðbundin nálgun við rannsóknir brota eigi ekki ávallt við í þeim tilvikum þar sem um er að ræða brot gegn öldruðum einstaklingum. Þá er bent á mikilvægi þess að vekja almenning til vitundar t.a.m. um hvernig bera megi kennsl á ofbeldi gegn öldruðum, auk þess að kanna bakgrunn starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum og koma upp athvarfi fyrir aldraða þolendur ofbeldis.

Skýrslan er aðgengileg hér.