3 Apríl 2014 12:00

Lögreglumenn á Selfossi handtóku tvo karlmenn og eina konu um níuleytið í morgun vegna gruns um að hafa stolið tösku með fartölvu og spjaldtölvu að verðmæti um þrjúhundruð þúsund krónur.  Fólkið kom í morgun inn í verslun Samkaupa við Tryggvagötu á Selfossi þegar sást til þeirra grípa töskuna og yfirgefa verslunina.  Lögreglu var þegar í stað tilkynnt um atvikið.  Um leið og fólkið sá til lögreglubíls splittaðist hópurinn og hver hljóp í sína átt.  Til karlmannanna náðist en þeir voru ekki með þýfið.  Skömmu síðar sáu lögreglumenn á ómerktum bíl til konunnar og óku upp að henni án þess að hún uggði að sér.  Hún var gripin glóðvolg með tölvutöskuna.  Þannig endurheimtust tölvurnar og komust óskemmdar í hendur eiganda síns.  Eftir handtöku fólksins fundust yfir tíu grömm af hvítu efni sem að líkindum er amfetamín.  Þremenningarnir gista fangageymslur á Selfossi og verða yfirheyrðir eftir hádegi.  Annar karlmaðurinn var eftirlýstur þar sem hann á að taka út vararefsingu vegna óuppgerðar sektar.