31 Október 2012 12:00

Þrettán hjólbarðar, sem stolið var frá N1, hjólbarðaþjónustu í Reykjanesbæ, fundust við leit lögreglu á Krýsuvíkurvegi, skammt frá Hafnarfirði. Um var að ræða svokallaða „Low Profile“ hjólbarða, sem hurfu eftir að brotist hafði verið inn í fyrirtækið. Öryggiskerfi fór í gang og öryggisvörður tilkynnti lögreglu að þar hefði verið brotist inn. Fylgst var náið með umferð í nágrenni fyrirtækisins, svo og á leiðum frá Reykjanesbæ, ef þjófarnir skyldu ætla að koma þýfinu úr umdæminu. Tveim dögum síðar fundust dekkin svo þar sem þau höfðu verið skilin eftir á Krýsuvíkurvegi.

Fjórir í fíkniefnaakstri

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum haft afskipti af fjórum ökumönnum vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Í einum bílanna fannst mikið af sprautum og efnaleifum. Við leit í bifreið númer tvö fundust pakkningar úr sellófani sem augljóslega voru undan hvítum efnum. Þegar ökumaður þriðju bifreiðarinnar var spurður hvort hann hefði fíkniefni undir höndum varð hann flóttalegur, fór með hönd í buxnavasa og tók upp samanbrotið bréf með kannabisefni. Fjórði bílstjórinn framvísaði einu grammi af kannabis, þegar lögregla stöðvaði för hans. Allir ökumennirnir voru handteknir og færðir á lögreglustöð.

Framvísaði fölsuðum lyfseðli

Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd að apóteki í umdæminu, þar sem viðskiptavinur hafði reynt að fá afgreitt lyf út á lyfseðil sem búið var að breyta. Starfsmanni apóteksins fannst seðillinn grunsamlegur og hafði því samband við lækninn sem gaf hann út. Læknirinn kvaðst hafa skrifað upp á parkódín fyrir þennan tiltekna viðskiptavin. Búið var að bæta forte aftan við parkódín þegar lyfseðillinn kom í hendur hins árvökula starfsmanns, þannig að sá sem framvísaði seðlinum hefði fengið mun sterkara lyf afgreitt en ella. Viðskiptavinurinn harðneitaði að hafa breytt seðlinum, en kvaðst hafa lagt hann frá sér og einhver óviðkomandi líklega notað tækifærið og breytt honum þá.