11 Janúar 2008 12:00

Í janúarbyrjun 2008 hófu 45 nemendur nám á þriðju önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins. Nemendurnir höfðu þá lokið átta mánaða starfsþjálfun sem flestir þeirra stunduðu hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Nokkur breyting er á námstilhögun á þriðju önn frá því sem verið hefur því nú verður lögð enn meiri áhersla á þjálfun hvers konar, hvort sem um er að ræða líkamsþjálfun, þjálfun í lögreglutökum, verkefnavinnu varðandi tiltekin viðfangsefni eða verklegar æfingar. Rúmlega helmingur námstímans fer á einn eða annan hátt í þessa þætti.

Með breytingunni er stjórn Lögregluskóla ríkisins m.a. að bregðast við ábendingum frá fyrri nemendum skólans sem komið hafa fram í viðhorfskönnunum sem hafa verið lagðar fyrir þá.

Byggt er á því í lögreglunámi að nemendur þurfa að leggja sig fram um að læra sjálfir til að öðlast þekkingu og því er mikil áhersla lögð á að þeir öðlist færni í að tengja saman öll helstu atriði sem beita skal við framkvæmd lögreglustarfa, hvort sem um er að ræða réttarreglur, verklagsreglur eða fyrirmæli.

Markmiðið með náminu á þriðju önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins er að nemendur, í framhaldi af námi þeirra á fyrstu og annarri önn, auki þekkingu sína, færni og líkamlegan styrk þannig að þeir í ríkari mæli, með auknu sjálfstæði og góðri tilfinningu fyrir mismunandi aðstæðum, geti sinnt allri almennri löggæslu í samræmi við þær væntingar sem almenningur, samstarfsmenn og yfirstjórn lögreglunnar gera til góðs lögreglumanns.

Að auki er það markmið námsins að nemendurnir öðlist skilning á því að lögreglan á Íslandi starfar við fjölbreyttar aðstæður og sinnir margvíslegum verkefnum. Þannig skulu nemendur, með réttu mati á aðstæðum, viðeigandi málfari og líkamstjáningu, vera reiðubúnir til að leysa ólík verkefni með því að sýna frumkvæði, hugrekki og röggsemi ásamt því að nota valdbeitingarheimildir og réttarfarsúrræði lögreglunnar á réttan hátt.

Brautskráning nemendanna verður þann 18. apríl n.k. og að henni lokinni geta þeir sótt um störf lögreglumanna sem þá verða laus til umsóknar.