7 September 2005 12:00
Nú hefur þriðji hópur nemenda í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins, sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ), sest á skólabekk í Lögregluskólanum. Námið, sem skiptist í fjarnám og 8 vikulangar námslotur í skólanum, miðar að því að stjórnendur í lögreglunni öðlist aukna þekkingu og færni í stjórnun í lögreglu. Kennd eru hefðbundin stjórnunarfræði auk þess sem tekin eru til skoðunar ýmis sératriði sem snúa að opinberri stjórnsýslu og framkvæmd lögreglustarfa.
Nemendur í þessum þriðja hópi eru 28 talsins, þeir koma frá 15 lögregluumdæmum og nemendahópurinn er þannig samansettur að í honum eru þrír lögreglustjórar, einn yfirlögregluþjónn, tveir aðstoðaryfirlögregluþjónar, 9 aðalvarðstjórar/lögreglufulltrúar og 13 varðstjórar/rannsóknarlögreglumenn.
Nemendurnir ljúka skólasetu sinni í aprílmánuði er vinna við lokaverkefni hefst og þeir útskrifast væntanlega með öðrum nemendum úr lengra námi EHÍ í júní 2006 og þegar þessi hópur hefur útskrifast munu alls 93 lögreglumenn og lögreglustjórar hafa lokið stjórnunarnáminu.
Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, fjallar um árangursrík samskipti
Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, fjallar um árangursrík samskipti