12 Janúar 2024 16:51

Þrír karlmenn voru handteknir í lögregluaðgerðum á Akureyri í morgun. Í framhaldi voru framkvæmdar húsleitir í tveimur húsnæðum og lagði lögreglan hald á farsíma og peninga. Tveimur karlmannanna hefur nú verið sleppt. Þriðji maðurinn var fluttur til Grikklands ásamt eiginkonu sinni og sex börnum sem eru á aldrinum 6 mánaða til 16 ára og lenti vélin þar nú fyrir skömmu. Fjölskyldan kom hingað til lands í september og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi en var synjað á þeim forsendum að þau eru með alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Aðgerðir lögreglu hafa staðið yfir síðan í nóvember í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld, þar á meðal Europol, vegna upplýsinga um að fjölskyldufaðirinn sé meðlimur í Íslamska ríkinu, ISIS.

Mikilvægt þótti að tryggja öryggi og velferð fjölskyldunnar í aðgerðinni í morgun og voru því starfsmenn félagsþjónustu, barnaverndar og heilbrigðismenntað starfsfólk ásamt fjölda lögreglumanna á vettvangi.

Aðgerð lögreglu tókst vel og er nú lokið en rannsókn málsins er enn á viðkvæmu stigi og því ekki hægt að veita nánari upplýsingar að svo stöddu.