30 Mars 2012 12:00
Þrír einstaklingar með fölsuð vegabréf voru stöðvaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag, miðvikudaginn 28.03.2012.
Karl og kona sem ferðuðust saman framvísuðu ítölskum vegabréfum við landamæraeftirlitið í flugstöðinni á leið sinni í flug til Kanada. Þau kváðust bæði vera frá Íran. Við skoðun vegabréfanna kom í ljós að skipt hefur verið um mynd í þeim báðum. Konan og maðurinn voru ákærð fyrir skjalafals og hlutu 30 daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness.
Þá voru höfð afskipti í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar af karlmanni er framvísaði norsku vegabréfi annars manns. Maðurinn hafði verið að koma með flugi frá Noregi en kveðst vera frá Eþíópíu. Í fórum hans fannst flugmiði með flugi til Kanada í dag, þann 30.03.2012. Mál mannsins er enn til rannsóknar.
Það sem af er þessu ári hafa sex fölsunarmál komið upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í janúar var maður stöðvaður með senegalskt vegabréf annars manns. Tveimur dögum síðar var maður stöðvaður með belgískt kennivottorð annars manns. Í febrúarmánuði var maður stöðvaður með grunnfalsað franskt kennivottorð.
Á sama tíma í fyrra, árið 2011, höfðu þrír eintaklingar með fölsuð skilríki verið stöðvaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Allt árið 2011 komu 33 fölsunarmál upp í flugstöðinni.
Undanfarin ár hafa flest fölsunarmál í Flugstöð Leifs Eiríkssonar komið upp í tengslum við flug til Kanada. Síðastliðinn miðvikudag var fyrsta flugið til Kanada þetta árið!