9 Október 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ungan ökumann um helgina vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Í bifreiðinni með piltinum, sem er sautján ára, voru tveir jafnaldrar hans. Lögregla fann kannabisefni og áhöld til neyslu þeirra í bílnum. Piltarnir voru handteknir og færðir á lögreglustöð. Einn þeirra kvaðst hafa keypt efnið, eftir að þeir hefðu skotið saman fyrir því, og væru þeir búnir að nota hluta þess. Þar sem þeir hafa ekki náð átján ára aldri var barnaverndarnefnd gert viðvart um atvikið.

Með 29 ketti á heimilinu

Lögreglan á Suðurnesjum heimsótti um helgina heimili í umdæminu í kjölfar þess að fjöldi kvartana hafði borist vegna hunda- og kattahalds þar og óþrifnaðar sem af dýrahaldinu hlytist. Þegar inn var komið reyndist þar fyrir fjöldi katta, tveir hundar og þrír páfagaukar í búri. Gaukarnir höfðu eitt herbergi út af fyrir sig. Lögreglumaður reyndi að kasta tölu á kettina, en þegar hann var kominn upp í 22 stykki bættust fleiri kettir við og blönduðust við þá ketti sem búið var að telja. Húsráðandi kvaðst vera með 29 ketti, fimmtán ketti sem hann ætti sjálfur og aðra fjórtán sem væru í pössun. Innan mánaðar yrði kattahaldið komið í annað og umfangsminna horf, pössunarkettirnir farnir og heimiliskettirnir yrðu ekki fleiri en sjö talsins.

Réttindalausir ökumenn í vímu

Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvo ökumenn um helgina vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Báðir reyndust þeir vera án ökuréttinda. Annar þeirra, karlmaður um tvítugt, hafði tekið bílinn sem hann ók, í óleyfi. Hann viðurkenndi brot sitt. Hinn, karlmaður á þrítugsaldri, sagðist vera með ökuréttindi en ekki vera með ökuskírteinið meðferðis. Við nánari skoðun kom í ljós að hann var próflaus. Þriðji ökumaðurinn, sem ók réttindalaus um helgina, reyndist vera með ógilt ökuskírteini.

Með 20 haglaskot í farangrinum

Öryggisgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar óskaði í gær eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum vegna skotfæra sem fram höfðu komið við skimun á farangri. Þarna reyndist vera um að ræða tuttugu haglaskot sem flugfarþegi, norskur ríkisborgari, hafði verið með í farteski sínu. Maðurinn hafði undirritað skjal frá öryggisgæslunni þess efnis að skotin yrðu fjarlægð úr farangri hans. Síðan hélt hann ferð sinni áfram. Lögreglan tók skotin í vörslur sínar og verður þeim eytt.