28 Nóvember 2012 12:00

Nú er farið að síga á seinnihluta fundaherferðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu. Í gær var röðin komin að því að ræða málefni miðborgarinnar, en frá árinu 2007 hefur orðið jákvæð þróun á svæðinu. Nefna má að innbrotum hefur fækkað um 41%, ofbeldisbrotum um 18% og eignaspjöllum einnig um 18%. Þrátt fyrir þessi ánægjulegu tíðindi er enn hægt að gera betur en miðborgin hefur þá sérstöðu að þangað sækja þúsundir manna í tengslum við skemmtanalífið um helgar. Gestirnir eru ekki alltaf til fyrirmyndar og það hefur auðvitað áhrif á afbrotatölfræðina.

Á fundinum, sem haldinn var í húsnæði borgarinnar á Vesturgötu 7 og var jafnframt sendur út í beinni útsendingu á netinu, var farið ítarlega yfir þróun brota á miðborgarsvæðinu undanfarin ár, auk þess sem birtar voru niðurstöður úr netkönnun, Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í könnuninni kemur m.a. fram að  76% íbúa á miðborgarsvæðinu eru ánægðir með störf lögreglunnar. Þrátt fyrir áðurnefnda fækkun brota er ýmislegt sem má betur fara og um það var rætt á fundinum. Nefnt var ónæði sem fylgir næturlífinu og eins var kallað eftir því að fleiri lögreglumenn mættu sjást fótgangandi í miðborginni. Ýmislegt fleira var rætt en tölfræðina frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér.

Miðborgin

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is