29 Nóvember 2012 12:00

Mikill meirihluti íbúa í Hlíðunum í Reykjavík, eða 92% þeirra, eru ánægðir með störf lögreglunnar og segja hana skila góðu starfi við að stemmu stigu við afbrotum. Þá telja 72% íbúa í hverfinu lögregluna vera aðgengilega, en þetta og fleira kom fram á fundi með lögreglunni og lykilfólki í Hlíðunum í gær. Tölurnar eru fengnar úr netkönnun, Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum, en niðurstöðurnar voru kynntar fundargestum.

Eins og á öðrum hverfa- og svæðafundum lögreglunnar var farið ítarlega yfir þróun brota en þar koma Hlíðarnar einmitt vel út. Innbrotum hefur fækkað um þriðjung frá árinu 2007, eignaspjöllum um tæplega fjórðung og ofbeldisbrotum um 40%. Fundarmenn voru að vonum ánægðir með þessa þróun en eftir kynningu lögreglunnar tóku við fyrirspurnir og umræður. Umferðarmál voru þar fyrirferðarmikil en sérstaklega var rætt um Miklubrautina og það ekki í fyrsta skipti á þessum árlega fundi lögreglunnar með fulltrúum íbúa í Hlíðunum. Fundurinn var sendur út í beinni útsendingu á netinu en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér. 

Miklabraut

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is