16 Nóvember 2011 12:00
Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst í Kópavogi á mánudag. Á næstu dögum munu fulltrúar embættisins heimsækja önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem og einstök hverfi í borginni og fara yfir stöðu mála á hverjum stað fyrir sig. Fundurinn í Kópavogi var ágætlega sóttur en hann var haldinn í Kópavogsskóla. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 3, kynnti tölfræði um þróun afbrota í sveitarfélaginu undanfarin ár en í þeim efnum horfir margt til betri vegar. T.a.m. hefur innbrotum fækkað verulega í samanburði við árin 2009 og 2010 en tölfræðina frá fundinum má nálgast með því að smella hér.
Fundargestum var jafnframt greint frá niðurstöðum símakönnunar, sem lögreglan lét framkvæma í vor en yfirskrift hennar er Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Langflestir, eða 83% aðspurðra telja lögregluna skila góðu starfi á þeirra svæði og ívið fleiri, eða 85,4%, segjast öruggir einir á gangi í sínu hverfi/byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á. Þess ber að geta að símakönnunin nær sömuleiðis til íbúa í Breiðholti en frá lögreglustöðinni á Dalvegi 18 í Kópavogi er einnig sinnt löggæslu í Breiðholti. Eftir kynningu lögreglunnar tóku við almennar umræður og þar voru einkum málefni barna og unglinga í brennidepli. M.a. var rætt um vínveitingastaði og hættuna af svokölluðum bjórkvöldum en lögreglan er vel á verði þegar þau eru annars vegar og heldur úti ströngu eftirliti.
Hörður Jóhannesson og Helgi Helgason.
Geir Jón Þórisson á spjalli við einn fundarmanna.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is