12 Nóvember 2009 12:00
Staða löggæslumála í Mosfellsbæ er í nokkuð góðu horfi. Rannsóknarsvið lögreglustöðvar 4 er staðsett í bænum eða á Völuteigi 8 og þar starfa átta rannsóknarlögreglumenn. Útköllum er hinsvegar sinnt frá Krókhálsi 5b í Árbæ en þar hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýverið fengið aðstöðu. Hún er hinsvegar ekki til langframa því ráðgert er að ný lögreglustöð verði byggð á Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Þótt starfsemin sé nú á tveimur stöðum hefur það ekki komið að sök enda mjög öflugur og samhentur hópur lögreglumanna sem starfar á þessu svæði. Rannsóknarlögreglumennirnir búa t.d. yfir mjög mikilli reynslu og hafa góða þekkingu á staðháttum. Sama gildir um þá sem sinna útköllum en sú krafa er gerð að þeir þekki svæðið mjög vel. Það sem hér hefur verið nefnt er hluti af breytingum sem hafa átt sér stað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu undanfarið en allar miða þær að því að bæta þjónustuna við íbúana. Liður í því er aukin sýnileg löggæsla en á það hefur verið lögð mikil áhersla.
Fjallað var um þessar breytingar á fundi sem lögreglan átti með lykilfólki í Mosfellsbæ í gær en þær kynnti Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4. Fundurinn var haldinn í Listasal bæjarins en hann sóttu vel yfir þrjátíu manns. Fyrir fundinn undirrituðu Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri samning um aukið öryggi og samvinnu á sviði löggæslu- og forvarnarmála í Mosfellsbæ en um það er fjallað sérstaklega annars staðar á lögregluvefnum. Í Listasalnum var einnig farið yfir þróun brota í Mosfellsbæ undanfarin ár en það var megintilgangur fundarins en þessi háttur hefur verið hafður á undanfarin fjögur ár. Fundir sem þessir hafa reynst mjög gagnlegir og eru góður vettvangur fyrir skoðanaskipti. Áhugi Mosfellinga á löggæslumálum er mikill og það endurspeglast í góðri mætingu þeirra ár eftir ár þegar fulltrúar lögreglunnar koma í heimsókn.
Líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði innbrotum í Mosfellsbæ í fyrra í samanburði við árin á undan. Þessi óheillaþróun hélt áfram fram á þetta ár en nú horfir til mun betri vegar í þeim efnum. Innbrot voru ekki síst fram á byggingasvæðum en þeim fækkaði eftir því sem dró úr framkvæmdum. Þá hefur orðið hlutfallsleg fækkun innbrota á heimili í Mosfellsbæ á fyrstu níu mánuðum þessa árs í samanburði við árin 2008 og 2007. Innbrot í bíla virðast hinsvegar vera stöðug en lögreglan hefur ítrekað hvatt til þess að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Draga mætti mjög úr innbrotum í bíla ef því væri fylgt eftir. Það var Einar Ásbjörnsson lögreglufulltrúi sem fór yfir þessar staðreyndir en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.
Margt fleira var rætt á fundinum og má þar nefna nágrannavörslu, umferðarmál og fíkniefni. Fíkniefnamál valda mörgum áhyggjum en baráttan við þennan vágest ætlar seint að taka enda. Lykillinn að árangri er hinsvegar samvinna allra aðila og þá skiptir máli að koma upplýsingum til lögreglu svo hún geti brugðist hratt við. Í lok fundarins voru birtar niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Könnunin var birt á lögregluvefnum í sumar en hana má nálgast með því að smella hér.