3 Nóvember 2009 12:00

Vesturbæingar komu til fundar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á árlegum fundi þeirra í gær. Að þessu sinni var fundað í Hagaskóla en fundargestir voru tæplega þrjátíu talsins. Ýmislegt brann á fólki en eins og svo oft áður voru umferðarmálin ofarlega á baugi. Hraðamælingar lögreglunnar sýna að íbúar í hverfinu, og aðrir sem eiga þar leið um, þurfa að gera betur og virða hámarkshraða. Fundarmenn nefndu nokkrar götur þar sem úrbóta er þörf og nefndu sömuleiðis Melaskóla sérstaklega í því samhengi. Telja þeir að þar skorti verulega á tillitssemi ökumanna en líka að huga mætti að breyttri aðkomu ökutækja að skólanum. Nefnt var að á morgnana hefði stundum verið allt að því öngþveiti á þessum stað. Ekki bætti heldur úr skák að bílum væri einnig oft illa lagt í nágrenni skólans en það ætti svosem við um fleiri staði í hverfinu. Fundarmönnum var líka tíðrætt um umferðarljósin í hverfinu og sögðu einhverjir að sum þeirra þyrfti að endurstilla.

Margt fleira var rætt en yfirskrift fundarins var Þróun brota í vesturbæ Reykjavíkur. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglunnar á þessu svæði, fór yfir tölfræðina en auðgunarbrotum árið 2008 fjölgaði í samanburði við árin á undan. Innbrot tilheyra þessum brotaflokki en árið 2008 varð óheillaþróun í þessum efnum. Innbrotum fjölgaði þegar líða fór á árið og ástandið var áfram slæmt fram á þetta ár. Nú sér hinsvegar til betri vegar og innbrotum fækkaði þegar kom fram á haustið. Þar munar mestu að tekist hefur að hafa hendur í hári stórtækra innbrotsþjófa. Sömuleiðis er ánægjulegt að sjá að innbrotum á heimili í vesturbænum fækkar á milli ára. Fyrstu níu mánuði þessa árs voru þau færri en á sama tímabili árin 2006-2008. Vesturbæingar þurfa samt að halda vöku sinni en það á ekki síst við um innbrot í bíla. Bifreiðastæðin við Háskólabíó og flugvöllinn voru nefnd sérstaklega hvað það varðar en mikilvægt er að skilja ekki verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Ómar Smári útskýrði einnig þróun er varðar ofbeldis- og fíkniefnabrot en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Á fundinum var einnig farið yfir viðhorf til starfa lögreglu og sýnileika hennar en um það sá Jóhann Karl Þórisson aðalvarðstjóri. Um er að ræða könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur m.a. fram að íbúar í vesturbæ Reykjavíkur telja að lögreglan skili góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfinu en 93% töldu svo vera. Vesturbæingar voru líka ágætlega sáttir með aðgengi sitt að lögreglunni en 78% íbúanna fannst það viðunandi og vel það. Könnunina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.