5 Apríl 2013 12:00

Sex umferðaróhöpp hafa verið skráð hjá lögreglunni á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Í gær varð harður árekstur í Grindavík. Ökumenn beggja bifreiða, sem voru einir í bifreiðum sínum voru fluttir annars vegar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hins vegar á Landspítala í Fossvogi. Bifreiðarnar voru fjarlægðar með dráttarbílum.

Þá ók ökumaður á íbúðarhús, annar ók á ljósastaur og hinn þriðji ók upp á umferðareyju og ók í leiðinni niður tvö umferðarmerki. Loks voru tvær aftanákeyrslur. Annars vegar var bifreið ekið aftan á bifhjól og hins vegar var bifreið ekið aftan á aðra.

Um 400 lítrum af eldsneyti stolið

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning þess efnis að um það bil 400 lítrum af eldsneyti hefði verið stolið af þremur vörubifreiðum í eigu verktakafyrirtækis. Menn höfðu verið að vinnu á staðnum þar sem bifreiðarnar stóðu fram á kvöld en að morgni næsta dags var eldsneytið horfið af þeim. Lögregla rannsakar málið og liggja meðal annars fyrir upptökur úr öryggismyndavélum á svæðinu.

Dópaður ökumaður á reynslulausn

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðastliðnum dögum handtekið þrjá ökumenn sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sýnatökur á lögreglustö‘ð staðfestu að einn þeirra hafði neytt amfetamíns, metamfetamíns, kannabis og ópíumblandaðs fíkniefnis. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum og var að auki á reynslulausn. Fangelsismálastofnun var gert viðvart og var maðurinn, sem er á fertugsaldri, boðaður í afplánun í dag.

Annar hinna tveggja ökumannanna viðurkenndi neyslu á amfetamíni og kannabis, og hinn reyndist hafa neytt kannabisefna, að því er sýnatökur staðfestu.