1 Desember 2010 12:00
Þróun brota í vesturbæ Reykjavíkur er í flestum tilfellum jákvæð enda hefur þeim fækkað á milli ára. Farið var ítarlega yfir brot í þessum borgarhluta á árlegum fundi lögreglunnar og lykilfólks í hverfinu sem haldinn var í Hagaskóla á mánudag. Þegar bornir eru saman fyrstu tíu mánuðir ársins við sama tímabil í fyrra má sjá að innbrotum á svæðinu hefur fækkað mikið. Þetta á fyrst og fremst við um innbrot í bíla og fyrirtæki en innbrot á heimili eru næstum því jafnmörg á umræddu tímabili. Það er vissulega áhyggjuefni en með samstilltu átaki allra er líka hægt að fækka innbrotum á heimili. Ein leið til þess er að halda úti nágrannavörslu en mikilvægi hennar er ótvírætt. Einnig skal ítrekað að fólk láti lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Upplýsingar af þessu tagi geta reynst lögreglu mjög gagnlegar.
Tilkynningum um þjófnaði almennt hefur fækkað töluvert á svæðinu á milli áranna 2009 og 2010 og sama má segja um eignaspjöll en hér er sömuleiðis átt við tímabil þessara ára frá ársbyrjun til októberloka. Frekari upplýsingar um tölfræði má annars nálgast hér. Fjölmargt annað kom til umræðu á fundinum og má m.a. nefna hraðakstur og þá iðju sumra að reykspóla með tilheyrandi ónæði fyrir aðra. Veggjakrot kom líka til tals sem og að koma upp eftirlitsmyndavélum í hverfinu. Skemmtanalífið í miðborginni bar líka á góma en lögreglan sinnir eftirliti með vínveitingahúsunum sem þar eru. Í því felst að tryggja að rekstraraðilar þeirra virði lög og reglur sem um þessa starfsemi gildir.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is