14 Desember 2021 16:53

Tvö ný smit greindust á Austurlandi eftir sýnatöku í gær, annað á Egilsstöðum og hitt á Eskifirði. Báðir þeir er greindust voru í sóttkví. Rakningu frá því um helgina er lokið.

Af þessum tíðindum má ráða að lægt hefur hjá okkur eftir storm síðustu daga og vikna. Gömul saga og ný engu að síður að veður eru válynd, ekki síst í COVID. Það höfum við nú reynt. Minnt er í því sambandi á að stutt er til jóla þar sem gjarnan eru samkomur hverskonar og ferðalög bæði innanlands og utan. Í því felast áskoranir fyrir okkur öll. Aðgerðastjórn hvetur af þeim sökum íbúa og þá sem standa fyrir viðburðum hverskonar að ganga hægt um gleðinnar dyr og áréttar sem fyrr þær reglur er tíundaðar hafa verið svo oft, að fara varlega í margmenni og muna handþvott og sprittun við hvert tækifæri.

Höldum áfram að gera þetta saman.