17 Nóvember 2020 15:27

Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi og staðan því óbreytt frá síðustu vikum.

Aðgerðastjórn eggjar austlendinga sem fyrr til að gæta að persónubundnum smitvörnum, svo sem tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun. Dæmin hafa sýnt að lítið má út af bregða til að smit komi upp og vísar þar til ástands á öðrum þéttbýlissvæðum landsins og ekki síður erlendis þar sem smitum fjölgar með ógnarhraða.

Hirðskáld aðgerðastjórnar hefur ekki setið auðum höndum síðustu COVID daga í blankalogni heldur barið saman í bundið mál hvatningu okkur til handa. Hann á síðustu orðin að þessu sinni.

Covid lokun víst er vandi,
verður margur rekstur bit.
Enn þó gagnast Austurlandi
einna best að forðast smit.
(Stefán Bragason)