15 Desember 2020 21:57

Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi.

Nú líður að jólum og þá viljum við að öllum líði sem best. Að veikjast af Covid nú þýðir fyrir viðkomandi að vera í einangrun um bæði jól og áramót. Mikilvægur liður í aðventuhegðun okkar þarf nú að vera vandaðar persónulegar sóttvarnir með því að virða tvo metrana, handþvott, sprittnotkun og grímuburð. Samhliða eins og alltaf að sýna tillitssemi, virða fjöldatakmarkanir og forðast margmenni. Síðast en ekki síst minnir aðgerðastjórn á að maður er manns gaman og því brýnt að við gætum hvers annars og ekki síst þeirra sem mögulega eru einir og nýtum þar bæði síma og myndsímtöl.

Þá er áréttað í þessu sambandi að ef brýn nauðsyn knýr á um ferðalög utan svæðis að gæta þá sérstaklega að sér bæði þar og þegar heim kemur. Það á einnig við um gesti, ættingja og vini, sem kunna að koma inn á svæðið vegna aðventu og jóla, jafnvel erlendis frá.

 

Nú þegar loks hyllir undir komu bóluefnis gegn Covid-19 skulum við halda þetta út saman og komast alla leið í mark.