26 Mars 2021 17:35

Fimm voru greindir með COVID smit á landamærunum á Seyðisfirði við komu Norrænu á þriðjudag. Þeir voru hluti af tuttugu og fimm manna hóp þar sem tveir greindust smitaðir við komu um borð í Norrænu í Hirtshals. Þrír bættust í hóp smitaðra við komu. Allir hafa þeir verið í einangrun síðan og ekki talin hætta á að smit berist í samfélagið. Samkvæmt upplýsingum aðgerðastjórnar var annar tveggja þeirra sem greindist smitaður í Hirtshals með gamalt smit og því ekki veikur eða smitandi. Aðgerðastjórn gerir ráð fyrir leiðréttingu vegna þessa og að smituðum muni því fækka um einn á Austurlandi þegar nýjar tölur berast á morgun.

Tíu COVID smitaðir áhafnarmeðlimir eru um borð í súrálsskipi sem liggur í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði. Fylgst er mjög skipulega með líðan þeirra í samvinnu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og COVID-deildar Landspítala. Ekki hefur þurft að flytja neinn þeirra frá borði og ástandið er stöðugt. Alls eru nítján í áhöfn skipsins. Aðrir skipverjar, níu talsins, hafa í tvígang verið skimaðir eftir komu skipsins til Reyðarfjarðar, fyrst á komudegi 20. mars og svo aftur 22. mars. Niðurstöður voru í báðum tilvikum neikvæðar. Þeir munu skimaðir að nýju á mánudag 29. mars, en enginn þeirra sýnir einkenni veikinda.

Aðgerðastjórn vekur athygli á að mörg smit hafa komið upp á landinu nýverið og sóttvarnir hertar vegna þess. Þá eru smit nú býsna nærri okkur í fjórðungnum þó ekki sé talin hætta á dreifingu þeirra.  Staðan sýnir þó glöggt mikilvægi þess að við förum ofurvarlega, ekki síst nú í aðdraganda páska með þeim áskorunum sem þeim fylgja. Gætum því að öllum persónubundnum vörnum sem áréttaðar hafa verið svo oft, tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun.

Förum frísk inn í helgina, dymbilvikuna og páskana. Með samstilltu átaki komum við jafnfrísk til baka.